Innlent

Öskraði, braut af­greiðslu­borð og veittist að starfs­manni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan fór í þrjú útköll vegna ofurölvi einstaklinga í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan fór í þrjú útköll vegna ofurölvi einstaklinga í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var nokkrum sinnum kölluð til í gærkvöldi og nótt vegna ofurölvi einstaklinga, meðal annars að bensínstöð í póstnúmerinu 110 þar sem maður hafði öskrað og slegið í afgreiðsluborð úr gleri með þeim afleiðingum að það brotnaði upp úr borðinu.

Atvikið átti sér stað um klukkan 21 og lét maðurinn sig hverfa í kjölfarið en mætti aftur um miðnætti og veittist að starfsmanni. Maðurinn var þá handtekinn og fluttur á lögreglustöð og síðan í fangageymslu. Hann er einnig grunaður um þjófnað.

Annar ölvaður maður var handtekinn í sama hverfi um klukkan 20.30 en þegar komið var að svaf hann ölvunarsvefni utandyra og var með áverka í andliti. Sjúkrabifreið var kölluð út til að meta ástand mannsins en hann síðan færður á lögreglustöð og vistaður sökum ástands.

Enn fyrr um kvöldið var aðstoðar lögreglu óskað á veitingastað í póstnúmerinu 105. Þar reyndist ofurölvi maður ekki hafa getað greitt fyrir þær veitingar sem hann fékk og var að auki sofnaður ölvunarsvefni. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum. Þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki í Kópavogi, þar sem 3.000 krónum var stolið úr peningaboxi. 

Rétt fyrir kvöldmat var tilkynnt um umferðarslys í sama bæjarfélagi, þar sem ekið var á gangandi vegfaranda. Var hann með áverka á höfði og mjöðm og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×