Vísir greindi frá því í gær að sextán ára drengur var hnepptur í gæsluvarðhald í seinasta mánuði í tengslum við rannsókn lögreglunnar á kókaínsmygli. Pilturinn var úrskurðaður í einangrun vegna málsins þann 7. október síðastliðinn. Fjórum dögum síðar felldi Landsréttur þann úrskurð úr gildi á þeim grundvelli að ekki væri kominn fram rökstuddur grunur um aðild hans að innflutningnum.
Óheimilt að vista fanga undir átján ára aldri í fangelsi
Í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar kemur fram að fangar sem eru undir átján ára aldri skulu vistast á vegum barnaverndaryfirvalda. Óheimilt er að vista fanga undir átján ára aldri í fangelsi nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Gert er ráð fyrir því að Barna- og fjölskyldustofa komi að því að finna lausn í málum sem þessum og meðferðarúrræði stofnunarinnar geti þá gagnast, t.d. meðferðarúrræði á Stuðlum.
Frá 1. janúar 2017 hefur einn dómur borist Fangelsismálastofnun til fullnustu þar sem viðkomandi var sautján ára, en þeim einstaklingi var veitt heimild til að afplána refsingu með samfélagsþjónustu.
Eva Sjöfn lagði jafnframt fram fyrirspurn varðandi sakarvottorð barna og spurði hversu mörg börn hafa verið sett á sakaskrá í kjölfar refsilagabrota undanfarin tíu ár. Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að samkvæmt upplýsingum sem voru teknar saman af embætti ríkissaksóknara voru alls 1.023 börn aldrinum fimmtán til átján ára skráð með brot á sakaskrá ríkisins undanfarin tíu ár en listinn tekur yfir öll brot þessara einstaklinga sem færð voru á sakaskrá.