Svo virðist sem um sé að ræða stuðningsyfirlýsingu landsliðsins við mótmælin heima fyrir en aðdáendur á vellinum hrópuðu á meðan þjóðsöngurinn stóð yfir og sumir héldu á lofti mótmælaspjöldum þar sem meðal annars stóð: Kona. Líf. Frelsi.
Þegar ljóst varð að leikmennirnir ætluðu sér ekki að syngja þjóðsöngin þegar hann var spilaður, fór ríkismiðillinn í Íran frá því að sýna liðið og í vítt skot af vellinum.
Mótmælaaldan sem nú gengur yfir Íran braust út þegar hin 22 ára Mahsa Amini lést í varðhaldi, eftir að hafa verið handtekin af siðferðislögreglu landsins fyrir brot gegn lögum um slæðunotkun kvenna.
Fjölskylda Amini og mótmælendur segja hana hafa verið barða til bana af lögreglu en yfirvöld hafa haldið því fram að hún hafi fengið fyrir hjartað.
Mannréttindasamtök segja fleiri en 400 hafa látið lífið í mótmælunum og 16.800 verið handtekna. Leiðtogar Íran hafa kallað mótmælin óeirðir, sem þeir segja skipulögð af erlendum óvinum ríkisins.
Liðsmenn Íran hafa hingað til verið gagnrýndir fyrir hálfvolgan stuðning við mótmælin og aðdáendur kallað eftir beittari gagnrýni á harðræði stjórnvalda.
Iranian fans raised the "Woman, Life, Freedom" banner during the #IranvsEngland game. The game was overwhelmingly under the shadow of the protests & the killings in Iran. Many want their team to publically support the protests.#MahsaAmini #WorldCup #Qatar2022 #IranRevoIution pic.twitter.com/W2uBk1Hswl
— Omid Memarian (@Omid_M) November 21, 2022