Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Morgunblaðið í morgun. Hann segir nýjan veruleika tekinn við í þessum efnum og að vopn finnist nú reglulega í klefum og sameiginlegum rýmum fangelsa landsins. Þetta hafi fyrir nokkrum árum verið nánast óþekkt.
Í blaðinu er rætt við nokkra fangaverði og fullyrt að uppi sé hávær krafa um að þeir fái aukinn varnarbúnað, til að mynda högg- og hnífavesti auk þess sem rafbyssur hafa verið nefndar í þessu sambandi.
Enn sem komið er mun ekki vera dæmi um að vopnum hafi verið beitt gegn fangavörðum heldur aðeins í átökum á milli fanga. Þó er greint frá því að fangaverðir hafi komist á snoðir um ráðabrugg nokkurra fanga þar sem til stóð að hella heitri olíu yfir tiltekinn fangavörð í hefndarskyni.