Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fréttastofu barst í dag.
Samtökin segja hið 391 tilvik sem fjallað er um í ársyfirliti Ísteka yfir blóðtökur í ár í mótsögn við fullyrðingar um eftirlit dýralækna með starfseminni.
„Enn fremur ber að spyrja gagnrýnna spurninga um það hvernig slíkir hlutir geta átt sér stað þegar dýralæknar á vegum Ísteka framkvæma blóðtökuranr og fylgjast með þeim,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er vísað til heimildarmyndarinnar, þar sem dýralæknar hafi litið framhjá illri meðferð meranna án þess að aðhafast.
Vísir fjallaði um ársyfirlit Ísteka fyrr í mánuðinum. Þar kom meðal annars fram að blóð hefði verið tekið úr 4.141 hryssu í ár, í samtals um 24 þúsund skipti, á 90 starfsstöðvum.
AWF/TSB gagnrýna fullyrðingu Ísteka um fækkun í stétt blóðmerabænda sökum heimildarmyndar samtakanna og segjast þvert á móti hafa það eftir bændum að fækkunina megi rekja til mikils kostnaðar við blóðmerahaldið, meðal annars vegna fóðurs og vinnu.
Þá gefa samtökin lítið fyrir fullyrðinga Ísteka um að fulltrúar þeirra sem hingað komu í ár hafi komið fram af ókurteisi við bændur og ögrað þeim.
„AWF og TSB komu aftur til Íslands í ágúst 2022 til að kynna sér aðstæður og ræða við fulltrúa atvinnulífs og stofnana,“ segir í yfirlýsingunni. „Við tókum viðtöl við fjölda fulltrúa félaga, atvinnulífs, stjórnmála og stjórnsýslu. Meðal annars gaf Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Mast, kost á ítarlegu viðtali. Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, vildi ekki veita viðtal á sama hátt og hann hafði áður hafnað viðtalsbeiðnum við íslenska fjölmiðla.“
AWF/TSB hafa beitt sér fyrir því að framleiðslu PMSG, sem unnið er úr merablóði, verði hætt. Samtökin segja Ísteka hafa staðfest það í ársyfirlitinu að markmið hrossaræktunar blóðmerabænda sé að auka hlutfall PMSG í blóði fylfullra hryssa, sem sé ábyrgt gagnvart ræktendum íslenska hestsins sem þurfi að huga að fjölmörgum tegundarbundnum eiginleikum.
„Þannig verður ímynd íslenska hestsins smátt og smátt eyðilögð með hverju viðbótarprósenti „blóðmeraeiginleika“. Með þessu er verið að þjóna einhliða viðskiptahagsmunum Ísteka og tefla í tvísýnu ímynd og einstökum erfðaeiginleikum íslenska hestsins.“