Innlent

Rétturinn til að gleymast ekki algildur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að á hverju ári leiti nokkrir einstaklingar til Persónuverndar vegna synjunar frá Google LLC.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að á hverju ári leiti nokkrir einstaklingar til Persónuverndar vegna synjunar frá Google LLC. Vísir/Egill

Persónuvernd er sammála niðurstöðu Google LLC um að hagsmunir almennings vegi þyngra en einkalífshagsmunir þjóðþekkts einstaklings í máli þar sem viðkomandi reyndi að fá frétt um meint einelti afmáð af leitarvélum tæknirisans. Forstjóri Persónuverndar segir að á hverju ári leiti til Persónuverndar einstaklingar sem hafa fengið synjun frá Google.

Ónefndur þjóðþekktur einstaklingur leitaði til Persónuverndar vegna synjunar um að afmá af leitarvélum frétt um meint einelti sem hann átti að hafa viðhaft á vinnustað sínum.

Google LLC hafnaði beiðninni á þeim grundvelli að gögn gæfu ekki til kynna að ásakanirnar væru rangar auk þess sem stutt væri síðan fjölmiðlaumfjöllunin birtist. Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar.

„Í víðu samhengi þessara mála þá felur rétturinn til að gleymast í sér að hinn almenni borgari á almennt rétt á honum, að persónuupplýsingar séu aftengdar upphaflegum fréttum af því að fréttaflutningur getur verið ósanngjarn og þungur og getur sýnt ekki rétta mynd af einstaklingi þegar fram líða stundir og það var einmitt Evrópudómstóllinn sem kvað upp úr um þennan rétt 2014.“

Sjá nánar úrlausn Persónuverndar: Birting leitarniðurstaðna í leitarvél Google

Þá hafði spænskur einstaklingur leitað réttar síns vegna fjölmiðlaumfjöllunar um uppboð sem hann hafði lent í vegna lítillar upphæðar sem fylgdi honum alla tíð en var ekki talin sýna rétta mynd af honum. En rétturinn til að gleymast er ekki algildur og nær ekki skilyrðislaust yfir alla.

„Þannig að ef við erum að tala um opinberar persónur eða við erum að tala um einhver sem gegnir ábyrgðarstöðu eða ef það eru einhver tengsl við ábyrgðarstöðu eða það eru einhver tengsl við stjórnmálaþátttöku fer í rauninni fram ákveðið hagsmunamat og þá er talið nauðsynlegt að almenningur viti af ákveðnum hlutum.“

Leita margir til Persónuverndar eftir synjun frá Google?

„Það er nú bara þannig að fólk lendir í ýmsu á lífsleiðinni þannig að það eru alltaf einstaklingar sem koma síðan til okkar. Þetta eru ekki stórar tölur á hverju ári en það slæðast hérna inn einhverjar umsóknir í þessa veru.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×