James er núna aðeins rúmum átta hundruð stigum frá því að bæta stigamet Kareem Abdul-Jabbar í NBA-deildinni. Metið fellur líklega á þessu tímabili en það lítur út fyrir James ætli að sjá til þess að það verði aldrei slegið aftur.
Dennis Schröder, þýski leikstjórnandinn sem spilar með LeBron James hjá Los Angeles Lakers, segir að það sé ekkert fararsnið á James.
Schröder sagði frá því að LeBron hafi talað um það við sig að hann ætli að spila fimm til sjö ár í viðbót eða þar til að hann verði 45 ára gamall.
LeBron hefur alltaf verið með það sem markmið að spila með sonum sínum en þeir eru hinn átján ára gamli Bronny James og hinn fimmtán ára gamli Bryce James.
Bronny James er eftirsóttur af bandarískum háskólum og Bryce þykir jafnvel vera enn efnilegri.
Þrátt fyrir að vera að verða 38 ára gamall þá er ekki mikið hægt að kvarta yfir spilamennsku LeBron James. Hann er með 25,7 stig, 8,8 fráköst og 6,4 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili.