Depp (59) stefndi Heard (36) fyrir meiðyrði og krafðist fimmtíu milljóna dala í miskabætur, sem samsvarar um 6,5 milljörðum íslenskra króna. Réttarhöldin voru sýnd í beinni útsendingu á netinu og vöktu þau gríðarlega mikla athygli á heimsvísu.
Lögmannateymi Heard fór nýverið fram á að dóminum yrði snúið við eða málið tekið upp að nýju því réttarhöldin hefðu verið haldin í Virginíu. Lögmennirnir sögðu að málið hefði ekki átt að fara fyrir rétt í Bandaríkjunum því breskir dómstólar hefðu áður komist að þeirri niðurstöðu að Depp hefði beitt Heard ofbeldi.
Sjá einnig: Amber Heard vill áfrýja
Heard tilkynnti svo í dag að hún hefði hætt við þá áfrýjun á grunni samkomulags. Í færslu á Instagram segir hún að samkomulagið feli ekki í sér játningu á nokkurri sekt og samkomulaginu fylgi ekki þagnarbindindi.
„Það er mikilvægt fyrir mig að segja að ég kaus þetta aldrei. Ég varði minn sannleik og við það var lífi mínu eins og ég þekkti það rústað,“ skrifaði Heard. Hún hafi verið teiknuð upp sem dusilmenni á samfélagsmiðlum og nú hafi hún loks tækifæri til að slíta sig frá sambandi sem hún hafi reynt að losna frá í rúm sex ár.
Hún geti nú gert það á ásættanlegum forsendum. Hún sagði ákvörðunina þó hafa verið mjög erfiða.