Í tilkynningunni segir að notast hafi verið við 163 björgunartæki síðustu daga, langmest breyttir jeppar og snjóbílar, en einnig stærri trukkar. Áætlað er að á fimmta þúsund manns hafi verið aðstoðaðir með beinum eða óbeinum hætti þessa daga.
„Á Grindavíkurvegi voru 1.200 manns komið til aðstoðar og hjálpað í skjól, um 1.500 manns voru aðstoðaðir í Reykjanesbæ auk þess sem um 2.000 farþegar sem voru strandaglópar í Leifsstöð. Björgunarsveitir sinntu líka því mikilvæga verkefni að koma því starfsfólki til vinnu sem brýn þörf var á að kæmust, svo sem heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk viðbragðs aðila. Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar víða,“ segir í tilkynningunni.
Nokkur verkefni sem björgunarsveitir leystu um helgina og ekki hafa komist í hámæli eru tiltekin, meðal annars:
- Björgunarsveit flutti krabbameinssjúkling til læknis svo meðferð viðkomandi héldist.
- Björgunarsveit flutti lyf fyrir langveikt barn sem var orðið uppiskroppa.
- Björgunarsveit flutti einstakling í aðgerð sem hafði verið undirbúin með lyfjagjöf og gat ekki beðið.
- Björgunarsveit flutti Insulin lyf til einstaklings í Leifsstöð, sem var orðinn uppiskroppa og stefndi í óefni.
- Björgunarsveit flutti ófríska konu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem vegna áhættu meðgöngu gat ekki beðið lengur.
- Björgunarsveit flutti líffæri sem var að koma að utan á Landsspítala fyrir sjúkling sem var á leið í aðgerð.
- Björgunarsveitir aðstoðuðu við flutning aðfanga fyrir fjölmörg fyrirtæki þar sem hætta var á alvarlegum rekstrartruflunum með miklum áhrifum.
Fjöldi aðstoðarbeiðna undanfarinna daga var slíkur að nauðsynlegt var að forgangsraða þeim með tilliti til alvarleika og mikilvægis, eftir því sem fram kemur í tilkynningu Landsbjargar.