Efling mætti með breytt tilboð frá kröfum sem lagðar voru fram í síðustu viku til Samtaka atvinnulífsins á fundi hjá ríkissáttasemjara í morgun. Launahækkanir verði á bilinu 57.500 til 65.558 krónur að meðtalinni 15.000 króna framfærsluuppbót.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir félagið hafa fallist á að hagvaxtarauki sem koma átti til greiðslu í vor samkvæmt nýútrunnum samningum falli niður en verði bættur upp með öðrum launaliðshækkunum.

„Samtök atvinnulífsins féllust ekki á það tilboð sem Efling hafði gert þeim. Þannig að það var bara niðurstaða fundarins,“ sagði Sólveig Anna að loknum fundi.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA mætti hálfstiginn upp úr flensu til fundarins og minnti á að nú lægju fyrir samþykktir kjarasamningar við um 80 þúsund manns í landinu. Kröfur Eflingar vikju í öllum meginatriðum frá þeim línum sem þar hefðu verið lagðar.

„Frá þeirri línu geta Samtök atvinnulífsins ekki hvikað. Vegna þess að þá værum við að bregðast trúnaði fólksins í landinu. Á þeim grunni lýsti ég því yfir með mjög afdráttarlausum hætti að það tilboð sem lagt var fram gæti aldrei orðið grundvöllur að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins,“ segir Halldór Benjamín.
Formaður Eflingar segir tilboð félagsins þýða að mest yrði launahækkun upp á 66 tæplega þúsund krónur.
„Þeir samningar sem náðst hafa og nú hafa verið samþykktir hjá iðnaðarmönnum og verslunarmönnum þar er einmitt hæsta hækkunin 66 þúsund. Þannig að við erum þarna að vinna með þær nálganir sem niðurstaða hefur náðst um á vinnumarkaði,“ segir Sólveig Anna. Nú þurfi samninganefnd Eflingar að setjast yfir málin og meta næstu skref.

„Það er alveg sjálfsagt að sýna sveigjanleika og útsjónarsemi til að koma sérstaklega til móts við einstaka viðsemjendur. En við getum aldrei hvikað frá þessu kostnaðarmati. Á þeim grunni kaus ríkissáttasemjari að boða til nýs fundar milli jóla og nýárs, að morgni 27. desember, og ég kýs að túlka þau orð með þeim hætti að Efling hafi fallist á viðræður á þeim grundvelli sem ég tel að sé risastórt skref í rétta átt,“ segir framkvæmdastjóri SA.
Þá verða aðeins fimm dagar til áramóta.

„Með því að semja fyrir áramót hef ég sagt að við getum tryggt afturvirkni kjarasamningsins til 1. nóvember. En því lengur sem kjaraviðræður tefjast, því erfiðara verður að tryggja slíka afturvirkni,“ segir Halldór Benjamín.
Formaður Eflingar óttast ekki að félagar hennar tapi afturvirkni samninga til 1. nóvember.
„Nei, ég hræðist það ekki. Enda væri það náttúrlega fráleitt að fara að refsa sérstaklega verka- og láglaunafólki höfuðborgarsvæðisins sem knýr hér áfram hjól hagvaxtarins, sem heldur öllu gangandi, fyrir það að standa í öflugri kjarabaráttu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.