Innlent

Líkamsárás, eignaspjöll og tilraun til snjósleðaþjófnaðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verkefni lögreglu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt.
Verkefni lögreglu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt í kjölfar líkamsárásar og eignaspjalla. Þá var lögregla kölluð til vegna ágreinings og mögulegra skemmdarverka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar en engar frekari upplýsingar eru gefnar um ofangreind atvik.

Verkefnin virðast annars hafa verið nokkuð fjölbreytt en lögregla var einnig kölluð til vegna skemmda á bifreið eftir „snjóboltakast“ og vegna tilraunar manns til að stela snjósleða. Sá taldi sig í rétti þar sem sleðinn hefði staðið lengi þar sem hann var.

Einnig bárust tilkynningar vegna þjófnaða í verslun og matvöruverslun og þá voru þrír handteknir og „vistaðir“ vegna rannsóknar á ólöglegri dvöl.

Lögregla vísaði einnig óvelkomnum manni frá fjölbýli í borginni og þá var öðrum vísað út af veitingastað. Þá þurfti hún að hafa afskipti vegna farþega sem átti ekki fyrir leigubíl en um umtalsverða upphæð var að ræða. 

Einum var ekið heim eftir að hann hrasaði í miðborginni og þá var tilkynnt um slys í sundlaug, þar sem viðkomandi hlaut sár á höfði. 

Nokkur útköll bárust einnig tengd ölvun og hávaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×