Alls skoraði Williamson 43 stig sem er persónulegt met hjá honum. Hann var sérstaklega öflugur undir lokin og enginn annar leikmaður Pelicans skoraði síðustu tæpu fjórar mínútur leiksins.
Williamson kom Pelikönunum yfir, 118-116, þegar 39 sekúndur voru eftir en Anthony Edwards jafnaði fyrir Úlfana. Þegar fjórar sekúndur voru eftir fiskaði Williamson villu á Rudy Gobert, miðherja Minnesota. Hann setti annað vítið ofan í og það dugði til sigurs, 119-118.
Final 14 PTS for the @PelicansNBA
— NBA (@NBA) December 29, 2022
33 PTS in the second half
Career-high 43 PTS on the night
Please enjoy this edition of Zion Williamson: Getting Buckets pic.twitter.com/r5X86YU4TE
Samherji Williamsons, CJ McCollum, sagði að leikáætlun Pelicans undir lokin hafi verið afar einföld: „Látum Z hafa boltann og drullum okkur í burtu,“ sagði hann.
Williamson var nokkuð rólegur í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði tíu stig. Hann skoraði nítján í 3. leikhluta og alls 33 í seinni hálfleik sem er jöfnun á meti í sögu Pelicans. Anthony Davis afrekaði það tvisvar að skora 33 stig í hálfleik.
Williamson hitti úr fjórtán af 21 skoti sínu utan af velli og fjórtán af nítján vítaskotum sem hann tók fóru ofan í. Auk stiganna 43 gaf hann fimm stoðsendingar. Á þessu tímabili er Williamson með 25,2 stig, 7,2 fráköst og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Með sigrinum komst Pelicans á topp Vesturdeildarinnar. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð og 22 alls, líkt og Denver Nuggets.