Í tilkynningu frá SFS segir að Laufey Rún muni hefja störf 1. júní næstkomandi að loknu fæðingarorlofi.
„Laufey Rún er lögfræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík (MA) og Háskóla Íslands (BA). Hún starfaði sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra frá 2017 og síðar sem aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi frá 2019. Þá starfaði hún sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2014. Samhliða námi og starfi hefur Laufey Rún sinnt ýmsum félagsstörfum en hún var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2015-2017 og sat í stjórn sambandsins um árabil.
Lísa Anne mun gegna stöðu sérfræðings í vistkerfi hafs og mun hún hefja störf fljótlega. Lísa Anne lauk doktorsprófi í fiskifræði frá Háskóla Íslands árið 2015, auk diploma í hafrétti árið 2019. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar frá 2017, fyrst við sjávarvistfræðirannsóknir en síðustu ár sem verkefnastjóri yfir stofnmati og rannsóknum á síld, auk þess að vera virk í vinnunefndum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES. Hún hefur sinnt kennslu í 18 ár á háskólastigi og var formaður Líffræðifélags Íslands á árunum 2016-2021. Lísa Anne hefur víðtæka reynslu í sjávarvistfræðirannsóknum og hún er höfundur fjölda ritrýndra vísindagreina, skýrslna og hugbúnaðarins 'shapeR' í forritunarmálinu R, sem hægt er að nota til að aðgreina fiskistofna með kvarnalögun,“ segir í tilkynningunni.
Báðar stöður voru auglýstar í nóvember síðastliðnum og þær Laufey Rún og Lísa Anne valdar úr stórum hópi umsækjenda.