Skoðun

Ein­elti full­orðinna og á­hrif þess á börn; það sem börnin erfa og heldur á­fram kyn­slóð eftir kyn­slóð

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar

Þegar ég var barn þá horfði ég eins og flest börn á fullorðið fólk sem gott fólk. Sem einhvers konar verndarengla allra barna og á ákveðinn hátt lífsins kennara sem hjálpa börnum að komast á næsta og næsta stig í lífinu sem að sjálfsögðu þau eiga að gera og því sem betur fer gera í mörgum tilvikum.

En ég komst að því mjög fljótt sem ungur strákur að þótt fólk sé komið á fullorðinsaldur þá þýðir það ekki endilega að sá þroski sem það ætti að hafa, hafi þróast með því í gegnum lífið sé til staðar eða einfaldlega góðmennska, þolinmæði kærleikur og væntumþykja fylgi fullorðnu fólki.

Þegar ég var um 8 ára aldurinn var strákur sem ég þekkti lítillega í afmælisveislu og þessi strákur stamaði mikið. Ég stóð rétt fyrir utan eldhúsið á heimilinu á meðan strákurinn var að koma frá sér að hann vildi meira að drekka. Þegar hann loksins kom þessu til skila þá fór hann fram og þá byrjaði móðir drengsins sem átti afmæli að pirra sig yfir stráknum svo að foreldrar sem voru á staðnum og sum börn heyrðu vel. Pirringurinn var það mikill að halda mætti að jarðýta hefði eyðilagt garðinn hennar.

Börnin heyrðu og sáu hegðun konunnar og þessum strák var strítt mikið. Enda töldu börnin það vera bara eðlilegt að gera eins og konan, fyrirmyndin þeirra, fullorðna manneskjan.

Ég sem faðir tek eftir því að börn heyra allt, líka þegar maður heldur að þau geri það ekki. Ég tek líka eftir hegðun fullorðins fólks þar sem það situr við eldhúsborðið og talar illa um náungann og jafnvel foreldra annarra barna sem börnin heyra og taka svo til sín og telja auðvitað eðlilegt að hegða sér eins og mamma sín og pabbi.

Svona erfist þessi eineltishegðun kynslóð eftir kynslóð þar sem foreldrar tala illa um aðra svo börn þeirra og annað fólk heyrir eða taka þátt í samtalinu og börnin verða sjálfkrafa eins og foreldrar sýnir sem beita aðra einelti eða ofbeldi ì mörgum myndum eins og mamma sín og pabbi.

Stundum eru þetta litlir hlutir eins og foreldrar sem hafa farið í gegnum skilnað. Ég veit t.d. um dæmi þegar ungur strákur undir níu ára aldri kom til föður síns frá barnsmóður og sagði;

,,Mamma sagði að þú ættir ljótan bíl."

Og einnig ,,Mamma sagði að þú værir vondur pabbi."

Annað dæmi er að sagt var við ungan strák á sama aldri sem hann hafði eftir móðir sinni og sagði við föður sinn: ,,er kærasta þín númer tuttugu pabbi?, mamma nefnilega sagði það."

Ég gæti talið upp mörg svona dæmi sem þið þekkið flest og flest þeirra mun verri sem ég vil ekki nefna hér.

Svona dæmi finnst kannski sumum lítilvæg en þetta hegðunarmynstur þróast í gegnum árin og börnin heyra neikvæðar samræður foreldra þar sem það er dæmt og talað illa um foreldra annarra barna og börn þeirra og til verður eineltishringur sem börn beita önnur börn vegna foreldranna sem jafnvel getur endað með að ungt fólk tekur líf sitt eins og við höfum séð gerast hér á Íslandi.

Ég man hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég komst að því að fullorðið fólk leggur aðra í einelti eins og börnin í skólanum. Fullorðna fólkið sem átti að passa mann og vera fyrirmynd fyrir komandi ár og líf manns.

Eftir því sem ég varð eldri þá tók ég meira og meira eftir þessu og varð einfaldlega fyrir miklum vonbrigðum. Það er sorglegt að horfa upp á börn verða að eineltissegjum því þau erfa hegðun og tal foreldra sinna. Börn sem kannski hefðu orðið fyrirmyndir ef þau hefðu verið alin upp í öðru umhverfi með fyrirmyndum sem þau eiga skilið.

Ég hef orðið vitni af kennurum sem fela ekki pirring sinn yfir börnum sem eru ofvirk eða eru með ADHD og sjálfkrafa verða þau börn útundan og eiga erfitt með að eignast vini því þau eru eitthvað "öðruvísi".

Börn sem er útskúfað af öðrum börnum og lenda í miklu einelti eiga oftar en ekki eftir að fara niður dimman veg í lífinu þegar þau verða eldri því þau sækja viðurkenningu frá öðrum hvar sem þau finna hana og oftar en ekki einstaklingum sem deila sömu reynslu og þau og verða á endanum andfélagsleg þegar þau hefðu getað blómstrað í lífinu ef rétt hefði verið haldið utan um þau.

Gróa á leyti þrífst því miður allsstaðar og fólk hópar sig saman og talar illa um náungann til að líða betur með sjálfan sig og það eru börnin okkar sem gjalda fyrir það.

Það skiptir engu máli hvort sögurnar eru sannar, ýktar eða einfaldlega losnar, þetta er eitthvað hegðunarmynstur sem erfst hefur kynslóð eftir kynslóð.

Ég held að við getum lært ýmislegt af okkar eigin börnum sem í sakleysi sínu og kærleika sýna okkur í raun hvernig við ættum að hegða okkur sem fullorðið fólk.

Sjálfsmorðstíðni á Íslandi hefur og er að aukast á milli ára mjög hratt og er einfaldlega afrakstur útskúfunar fólks frá hópum í samfélaginu, eineltis í æsku og á fullorðinsaldri og annarra áfalla sem fólk hefur aldrei getað unnið úr.

Það er mjög furðulegt að fólk geti ekki myndað félagsleg tengsl hvort við annað nema í gegnum neikvæð samtöl eða umræður þar sem einstaklingar eru teknir fyrir, hópar eða fjölskyldur og að það sé gengið frá kaffiborðinu með bros á vör og vellíðan.

Þessa þróun hef ég séð aukast í stað þess að fólk sitji við kaffiborðið með jákvæða umræðu um náungann og gengið frá kaffiborðinu ánægt með sjálft sig og náungann.

Ef börnin okkar geta komið til okkar og sagt upp úr þurru ,, Pabbi eða Mamma ég elska þig." Afhverju getum við ekki sýnt sama kærleika til hvors annars og kennt börnunum okkar hvað það raunverulega þýðir að vera fullorðinn?

Börnin okkar eru bestu kennararnir mínir í lífinu. Þau sýna mér hvað það þýðir að vera raunverulega fullorðinn.

Gísli Hvanndal Jakobsson

Eilífðarstúdent




Skoðun

Sjá meira


×