Vísir greindi frá málinu í morgun.
Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við Hádegisfréttir Bylgjunnar að lögreglan hafi fengið tilkynningu um málið á áttunda tímanum í gærkvöldi, um að mögulega væru aðilar á hóteli í miðborginni sem að væru með skotvopn undir höndum. Lögreglan fór og kannaði stöðuna og naut liðsinnis sérsveitarinnar í þessum aðgerðum.
Aðilarnir reyndust auk skotvopna vera með skotfæri og fíkniefni í fórum sínum. Þeir voru vistaðir í fangaklefa fyrir rannsókn málsins en málið er ekki þess eðlis að farið verði fram á gæsluvarðhald.
Að sögn Ásmundar verða teknar skýrslur af aðilunum og þeir líklega lausir í kjölfarið á því. Aðgerðir lögreglu voru að hans sögn ekki umfangsmiklar og talið er að um minniháttar mál hafi verið að ræða.
Að öðru leyti komu engin stórmál á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt, þó eitthvað væri um innbrot, eignaspjöll, og akstur undir áhrifum, þar sem tveir voru handteknir.
Þá voru nokkrir staðir í miðbænum kærðir fyrir að ýmist vera ekki með dyraverði eða dyraverð i sem voru ekki með réttindi.