Nýjar alþjóðlega mælingar sýna að Íslendingar eru meðal hamingjusömustu og langlífustu þjóða. Það samrýmist illa þeirri staðreynd að á sama tíma er þjóðin að setja fjölmörg met í lyfjanotkun.
„Við toppum nánast öll lönd nánast sama hvaða lönd við skoðum þá erum við að ávísa mun meira af lyfjum en löndin í kringum okkur. Ef maður skoða mismunandi lyfjaflokka þá erum við langt langt á undan hinum Norðurlöndunum með ADHD lyfin og eru þar svona á pari við Bandaríkin. Við erum langt á undan hinum Norðurlandaþjóðunum varðandi notkun sýklalyfja, við notum meira af bakflæðilyfjum, meira af asmalyfjum.“ segir Margrét Ólafía Tómasdóttir sem var með málþing um viðfangsefnið á Læknadögum í dag..
Margrét segir þetta kom á óvart.
„Við toppum okkur varðandi hamingju þjóðarinnar, við erum langlíf, heilsan er góð, lýðheilsuþættir eins og reykingar og áfengi eru í mjög góðu standi hér þess vegna kemur á óvart hvað við notum mikið af lyfjum,“ segir hún.
Aðspurð hvort lyfjanotkunin gæti verið lykillinn að hamingjunni og langlífinu svarar hún.
„Það er eitt af því sem þarf að skoða líka.“
Aðrar skýringar geti verið.
„Þetta er skuggahliðin á kappsemi þjóðarinnar. Ég held við þurfum að skoða betur og mögulega endurmeta stöðuna. Meta hvort þetta hafi eitthvað að gera með heilsulæsi, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins eða samfélagsbygginguna hjá okkur“ segir hún.
Það þurfi að endurmeta þessi mál.
„Lyfjanotkun til lengri tíma er skaðleg. Við erum að breyta því hvernig líkaminn hegðar sér. Eftir því sem við erum á fleiri lyfjum þá erum við að valda meiri skaða þannig að þarna koma alls konar þættir inn sem geta haft áhrif á lífskjör og lífslengd,“ segir Margrét að lokum.