Niðurstaða minnihlutans í Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis eftir fjórtán fundi í nefndinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölunni á hlut í Íslandsbanka, var að kalla eftir lögfræðiáliti. Lögfræðiáliti sem fæli í sér mat á stjórnsýslulegum þætti sölunnar 22. mars í fyrra með tilliti til meðferðar valds og ákvörðunartöku við söluna. Meirihlutinn í nefndinni felldi tillöguna á fundi í vikunni.
Þórunn Sveinbjarnadóttir formaður nefndarinnar sem situr í henni fyrir Samfylkinguna, lýsir yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu.
„Það er nú oft þannig að meirihlutinn fellir það sem minnihlutinn leggur til á Alþingi Íslendinga. Auðvitað vonar maður að í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis ráði önnur sjónarmið ráði för og þau gera það oft,“ segir Þórunn.
Hún telur mikilvægt að fá slíkt álit.
„Mér finnst þetta vera hluti af eðlilegri skoðun. Við í minnihlutanum erum þeirra skoðunar. Þá óskaði þingmaður Pírata á fundinum eftir að málinu yrði skotið til úrskurðar forseta Alþingis, þ.e. ákvörðun meirihlutans um að fella tillöguna og það hefur verið gert,“ segir Þórunn.
Þórunn segir málið á lokametrunum hjá nefndinni en hún hefur nú verið með skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölunni á Íslandsbanka til umfjöllunar á samtals fimmtán fundum. Nú sé beðið eftir úrskurði frá forseta Alþingis.
„Þá skilar nefndin sínum álitum sem væntanlega verða tvö og þau eru tekin til umfjöllunar í þinginu,“ segir Þórunn.