Oleksii Reznikov segir að Rússar hafi safnað saman um 500 þúsund hermönnum og að mögulega reyni þeir nýja sókn í febrúar í ljósi þess að þá er eitt ár liðið frá upphaflegu innrásinni. 23. febrúar er líka stór dagur í hugum Rússa því þá heiðra menn Rauða herinn fyrir að verja ættjörðina.
Loftárásir Rússa hafa haldið áfram á Úkraínu síðustu daga og í nótt létust þrír í árás á borgina Kramatorsk og átta særðust þegar rússneskt flugskeyti lenti á íbúðarblokk. Óttast er að fleiri lík muni finnast í rústunum.
Volodomír Selenskí Úkraínuforseti skrifaði á samfélagsmiðla eftir árásina og sagði að eina leiðin til að stöðva rússnesku hryðjuverkamennina væri með því að sigra þá. Til þess þurfi Úkraínumenn skriðdreka, langdrægar flaugar og orrustuþotur.