„Við ætlum að draga þessa stjórnsýslukæru til baka og fara með miðlunartillöguna fyrir héraðsdóm. Við ákváðum að gera það vegna þess að við höfum ekki trú á því að það vinnist neitt með að fara með þessa stjórnsýslukæru til ráðherrans. Viðbrögð hafa verið sein og svo framvegis,“ segir Sólveig Anna í samtali við fréttastofu.
Félagið tilkynnti eftir hádegi í dag að það ætli að skjóta kæru sinni vegna miðlunartillögu sáttasemjara til héraðsdóms. Félagið kærði tillöguna til vinnumarkaðsráðuneytisins á mánudag, 30. janúar, en málið eki verið afgreitt hjá ráðuneytinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa starfsmenn ráðuneytisins unnið langt fram á kvöld í vikunni til að afgreiða málið hratt.
„Við höldum að þetta sé skynsamlegri og betri leið fyrir okkur að fara. Einnig í ljósi alvarleika málsins er þetta eðlilegri staður að fara á teljum við,“ segir Sólveig.
Skera verði úr um lögmæti miðlunartillögunnar
Samtök atvinnulífsins hafa þá kært Eflingu til Félagsdóms vegna verkfallsboðunar félagsins. Til stendur að um þrjú hundruð Eflingarliðar hjá Íslandshótelum leggi niður störf á þriðjudag. SA telur verkfall ólögmætt þar sem miðlunartillagan, sem Efling hefur hafnað, liggur enn á borðum.
„Þetta er náttúrulega eins langsótt og furðulegt og hægt er að hugsa sér. Við erum ekki á svipaðri vegferð. Okkar málatilbúnaður er í engu langsóttur eða furðulegur, hann er tengdur veruleikanum sem við búum í. Við teljum að miðlunartillagan sé ólögleg, við teljum að framferði ríkissáttasemjara í því hvernig hún var unnin, lögð fram og svo framvegis brjóti gegn þeim lögum sem hann á að starfa eftir,“ segir Sólveig.
„Við teljum mjög mikilvægt, sem og aðrir í verkalýðshreyfingunni, að úr þessu verði skorið með skýrum og fljótum hætti.“
Skipa þurfi vararíkissáttasemjara
Hún telji að verkfall hefjist þrátt fyrir allt þetta á þriðjudag.
„Og á morgun hefst næsta atkvæðagreiðsla. Þá eru það hótelstarfsmenn á hinum hótelunum sem og olíubílstjórar og bílstjórarnir hjá Samskipum. Sú niðurstaða mun liggja fyrir á þriðjudaginn, sama dag og verkföllin eiga að hefjast. Ég er fullviss um að okkar plön haldi áfram að hreyfast fram á við eins og lagt var upp með.“
Efling geti ekki sest niður við samningaborðið ef Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á að miðla málum.
„Það var aldrei opnað á það að raunverulegar kjaraviðræður hæfust. Núna er staðan sú að stjórn Eflingar hefur lýst yfir vantrausti á ríkissáttasemjara þannig að ég get ekki séð að hann gæti tekið að sér á þessum tímapunkti að miðla einhverju í þessum deilum,“ segir Sólveig.
„Fari svo að embætti ríkissáttasemjara boði fund þá auðvitað erum við skuldbundin að mæta og munum ekki reyna að koma okkur undan því. Það sem ég er að segja er að sökum þess vantraust sem Efling ber á þessum tímapunkti til ríkissáttasemjari getur hann ekki verið áfram þarna inni. Það er lítið mál fyrir ráðherra að finna út úr því hvernig væri hægt að leysa það og setja einhvern, sem bæri titilinn aðstoðarríkissáttasemjari, í deiluna.“