„Mér líður vel. Ég veit að það sem við erum að gera hér er gott og ég er stoltur af vinum mínum sem vinna á Íslandshótelum,“ segir Conrad, starfsmaður hótelanna, í samtali við fréttastofu en hann var mættur á baráttufundinn í Iðnó sem hófst í hádeginu.
„Þetta er fólk sem vinnur myrkranna á milli og fær alltaf minna að launum í hverjum mánuði. Ég vona að ákvörðunin um verkfall reynist rétt,“ bætir Conrad við.
Adrian, sem starfar í vöruhúsi og er í samninganefnd Eflingar, segir að dagurinn hafi uppfyllt allar vonir samninganefndarinnar. Fólkið flykkist að Iðnó og vilji ræða úr hverju þurfi að bæta.
„Við erum mjög ánægð að vera komin hérna saman,“ segir Adrian.
Í heimsóknum samninganefndarinnar á hótelin hafi það orðið skýrt að grípa þyrfti til aðgerða.
„Við höfum heimsótt hótelin en fengum bara að vera í anddyrinu og spjalla við fólk inni á kaffistofu þannig að við höfum ekki séð vinnuaðstöðu fólks. Hins vegar höfum við fengið margar kvartanir frá þernum vegna aðstöðunnar,“ segir Adrian.
„Þetta er okkar síðasta vopn og við höfum þurft að grípa í það vegna þess að það er ekki hlustað á okkur. Fólk vill ekki mætast í miðjunni og vill ekki tala við okkur. Það lítur þannig á að við eigum ekki betri laun, vinnuaðstöðu og líf skilið.“