Graham Potter hefur ekki átt sjö dagana sæla sem þjálfari Chelsea og ömurlegt gengi liðsins undir hans stjórn hélt áfram í dag þegar fallkandídatar Southampton unnu 1-0 útisigur á Brúnni.
Chelsea gerði þrjú jafntefli í röð í ensku úrvalsdeildinni áður en liðið tapaði 1-0 fyrir Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Southampton, sem rak nýverið Nathan Jones, mætti á Brúnna í dag en fallið blasir einfaldlega við Dýrlingunum sem hafa ekkert getað á leiktíðinni.
Það voru hins vegar gestirnir sem tóku forystuna í blálok fyrri hálfleik þegar James Ward-Prowse þrumaði boltanum í netið beint úr aukaspyrnu. Staðan 0-1 í hálfleik og þrátt fyrir að Chelsea hafi gert sex skiptingar í síðari hálfleik þá dugði það einfaldlega ekki. Lokatölur 0-1 og ömurlegt gengi Chelsea heldur áfram.
Chelsea er eftir tap dagsins í 10. sæti deildarinnar með 31 stig á meðan Southampton er áfram í botnsæti deildarinnar með 18 stig.
Önnur úrslit
Brentford 1-1 Crystal Palace
Brighton & Hove Albion 0-1 Fulham
Everton 1-0 Leeds United
Wolves 0-1 Bournemouth