Lífið

Faldar mynda­vélar og leyni­makk þegar sá milljónasti flaug til Ís­lands

Máni Snær Þorláksson skrifar
Apaka hafði ekki hugmynd um hvað var í vændum.
Apaka hafði ekki hugmynd um hvað var í vændum. Vísir/Play

Þegar Ikechi Chima Apakama, 32 ára gamall breti, kom til Íslands í síðustu viku hafði hann ekki hugmynd um hann væri milljónasti farþegi flugfélagsins Play. Það vissu hins vegar vinir hans sem fylgdu honum til landsins og skemmtu sér vel.

Þann 17. febrúar síðastliðinn lagði Apakama af stað til Íslands frá John Lennon flugvellinum í Liverpool. Honum var fylgt eftir hvert fótmál á leiðinni til landsins af földum myndavélum. Vinir Apakama tóku einnig upp myndbönd alla ferðina til að sýna hve grunlaus hann var um hvað væri í gangi. 

Til að mynda var það tilkynnt í flugvélinni á leiðinni til Íslands að milljónasti farþeginn væri um borð í vélinni en Apakama grunaði ekki að hann væri sá farþegi.

„Hvert myndirðu fara ef þú vinnur þetta?“ spurði vinur Apakama hann í flugvélinni. „Í fullri hreinskilni, út um allt, ég myndi ábyggilega nota þetta sem afsökun til að fara út um allt.“

Þegar hann lenti á Íslandi var svo tekið á móti Apakama með fagnaðarlátum. „Vissuði þetta?“ spurði hann þá vini sína sem svöruðu játandi.: „Í þrjár vikur!“

Myndband af þessu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×