Erlent

Taka lít­ið mark á yf­ir­lýs­ing­u Rúss­a um inn­rás Úkra­ín­u­mann­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Maia Sandu, forseti Moldóvu, hefur varað við því að Rússar hafi ætlað að fremja valdarán í Moldóvu.
Maia Sandu, forseti Moldóvu, hefur varað við því að Rússar hafi ætlað að fremja valdarán í Moldóvu. AP/Aurel Obreja

Ríkisstjórn Moldóvu gefur lítið fyrir ásakanir Varnarmálaráðuneytis Rússlands um að Úkraínumenn ætli sér að gera innrás í Transnistríu, hérað í Moldóvu þar sem rússneski herinn er með viðveru. Rússar hafa haldið því fram að úkraínskir hermenn, klæddir eins og Rússar, ætli að sviðsetja einhvers konar ögrun sem Úkraínumenn ætli að nota sem átyllu til innrásar.

„Herafli rússneska sambandsríkisins mun bregðast við öllum ögrunum Úkraínu með viðeigandi hætti,“ sagði í yfirlýsingu Varnarmálaráðuneytisins.

Embættismenn í Moldóvu segja þetta þvætting en þeir hafa um nokkuð skeið varað við því að Rússar hafi ætlað að framkvæma valdarán í ríkinu.

BBC hefur eftir Valeriu Mija, innanríkisráðherra Moldóvu, að yfirlýsing Varnarmálaráðuneytis Rússlands sé liður í blönduðum hernaði gegn Moldóvu.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur reynt mjög á Moldóvu, sem er eitt fátækasta ríki Evrópu og á landamæri að Rúmeníu og Úkraínu. Moldóva hlaut á síðasta ári stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu.

Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi hafa frá árinu 1992 farið með völd í einu héraði Moldóvu sem kallast Transnistría. Þetta hérað er á landamærum Moldóvu og Úkraínu og þegar Rússar réðust upprunalega inn í Úkraínu í fyrra var útlit fyrir að eitt að markmiðum þeirra væri að tryggja landbrú til Transnistríu, þar sem Rússar hafa um árabilið verið með nokkur hundruð hermenn.

Sjá einnig: Varar við að Rússar hyggi á valdarán

Í frétt Reuters er vitnað í rússneska ríkismiðla þar sem því er haldið fram að ráðamenn á Vesturlöndum hafi skipað ríkisstjórn Moldóvu að slíta á öll samskipti við yfirvöld í Transnistríu. Ríkisstjórn Moldóvu hefur kallað eftir ró en segist tilbúin til að bregðast við öllum aðgerðum Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×