Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ein helsta vagga sjókvíaeldisins er á sunnanverðum Vestfjörðum. Á Patreksfirði telja menn því eðlilegt að margvísleg opinber störf sem tengjast eldinu séu jafnframt staðsett á svæðinu.
Ráðamenn Vesturbyggðar bjóða meira að segja eitt elsta og virðulegasta hús bæjarins undir starfsemina, Vatneyrarbúð, sem sveitarfélagið er að láta gera upp í samvinnu við Minjastofnun.

„Við viljum með þessu byggja upp aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Núna erum við mikið að fókusera á eftirlitsstörfin með fiskeldinu og viljum búa til umhverfi hérna fyrir rannsóknir og eftirlit með greininni,“ segir Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, formaður bæjarráðs Vesturbyggðar.
Hún segir að ítrekað hafi verið kallað eftir þessu í umsögnum og samtölum við forystumenn ríkisvaldsins.
„Af því að þessari grein, sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum, hefur ekki fylgt eitt einasta opinbert starf á sunnanverða Vestfirði.“
Fyrir vestan spyrja menn þeirrar gagnrýnu spurningar: Þarf virkilega allt að vera fyrir sunnan?
„Nei, okkur finnst það ekki. Hérna er greinin stunduð og það eru firðirnir okkar og samfélög sem eru undir,“ segir Þórkatla.

Nálægðin við atvinnugreinina geti jafnframt verið kostur þegar bregðast þurfi hratt við.
„Það hefur einmitt komið upp að hér hafa orðið slys. Og það koma upp óhöpp í starfseminni. Þá er bara gríðarlega mikilvægt að viðbragðið sé hér, að eftirlitið sé hér.“
Hún segir dæmi um að tekið hafi allt að tíu daga fyrir eftirlitsmenn að koma á svæðið eftir óhöpp.
„Og tvær vikur, að mér skilst, þegar verst var,“ segir Þórkatla.
Það þurfi öfluga starfsemi.
„Þar sem væru margir starfsmenn. Ekki bara einn. Við þurfum bara deild sem sinnir þessu,“ segir hún.
Spyrja má hvort það yrði tortryggt að opinbert eftirlit með umdeildri atvinnugrein væri á heimaslóð.
„Ég tel að það sé ekki eitthvað til að hafa áhyggjur af hér frekar en annarsstaðar. Ég held að fólk ætti að geta sinnt störfum sínum af fagmennsku hér eins og annarsstaðar,“ svarar formaður bæjarráðs Vesturbyggðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Áratugur er frá því að sveitarfélög og fyrirtæki á Vestfjörðum hófu að kalla eftir því að ríkið efldi fiskeldisrannsóknir í fjórðungnum, eins og sjá má í þessari frétt frá árinu 2014:
Í þættinum Ísland í sumar árið 2017 var fjallað um atvinnusögu Patreksfjarðar: