Rússneska knattspyrnusambandið hefur leitað leiða til að landslið Rússa geti spilað þrátt fyrir bönn UEFA og FIFA í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar í fyrra. Stríðinu er hvergi nærri lokið en vangaveltur hafa verið uppi um að Rússar geti snúið aftur til keppni í fótbolta með því að skipta frá UEFA yfir í AFC, knattspyrnusamband Asíu.
Forsmekkurinn að því gæti verið þátttaka Rússa í meistaramóti knattspyrnusambands Mið-Asíu í júní. Um er að ræða nýtt mót en aðilar að sambandinu, sem stofnað var árið 2014, eru Afganistan, Íran, Kirgistan, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.
Samkvæmt knattspyrnusambandi Tadsíkistan hafa Rússar þegar samþykkt boð á mótið en rússneska sambandið sagði við fréttaveituna Tass að enn væri verið að ræða um möguleikann.
Auk Rússa verður einni þjóð í viðbót boðið á mótið svo að þar spili átta lið.
Karlalandslið Rússlands spilaði þrjá vináttulandsleiki á síðasta ári og voru þeir allir gegn liðum úr knattspyrnusambandi Mið-Asíu, eða gegn Kirgistan, Tadsíkistan og Úsbekistan. Í þessum mánuði mætir liðið Íran og Írak.