Innlent

Fjögur inn­brot og eigna­spjöll

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sat ekki auðum höndum í nótt.
Lögregla sat ekki auðum höndum í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt en henni bárust meðal annars fjórar tilkynningar um þjófnað úr verslunum auk tilkynninga um íkveikju og eignaspjöll.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í miðborginni um klukkan 17 og aðstoðar óskað vegna þjófnaðar úr verslun í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan 22 en þar hafði fjármunum verið stolið úr peningakassa. Um klukkan 1 var svo tilkynnt um innbrot í verslun í póstnúmerinu 111 og klukkan 2.30 um innbrot í verslun í Kópavogi.

Þar hafði gler verið brotið í bílalúgu og peningakassa og posa stolið. Lögregla handtók einstakling í tengslum við málið stuttu síðar og reyndist hann vera með þýfið úr innbrotinu. Var hann vistaður í fangageymslu.

Tvær tilkynningar bárust um eignaspjöll í Kópavogi en í öðru tilvikinu höfðu nokkrir einstaklingar skemmt rúður í bifreið með því að berja í þær með einhverju sem vitni sagðist líkjast hafnaboltakylfu. Þá var tilkynnt um íkveikju í póstnúmerinu 112, þar sem kveikt var í gömlum ísskáp og hjólbörum. Engin hætta skapaðist vegna brunans.

Rétt fyrir klukkan 2 í nótt barst lögreglu ósk um aðstoð vegna slyss í Garðabæ en þar hafði einstaklingur fallið og hlotið opið beinbrot á hendi. Var hann fluttur með sjúkrabíl á Landspítala. Annar var fluttur á Landspítala eftir hjólreiðaslys í Árbæ.

Einn var handtekinn á bar í póstnúmerinu 108 fyrir að ógna gestum og starfsmönnum með eggvopni og annar í póstnúmerinu 104 grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna, árekstur, að stinga af og nytjastuld ökutækis. Viðkomandi virðist hafa stolið bifreið og ekið á tvær aðrar.

Nokkrir aðrir voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×