Hópur grímuklæddra karlmana ruddist inn á Bankastræti Club við Bankastræti 5 í miðborg Reykjavíkur að kvöldi fimmtudagsins 17. nóvember. Þar réðst hersingin á þrjá karlmenn á neðri hæð staðarins. Málið vakti óhug í samfélaginu og hafði lögregla aukin viðbúnað í kjölfarið.
Karlmaðurinn sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps var nýorðinn nítján ára gamall þegar árásin var gerð. Honum er gefið að sök að hafa veist að fórnarlömbunum þremur með hnífi. Einn manninn stakk hann tvisvar í öxlina, tvisvar í brjóstkassann, tvisvar í læri og einu sinni í framhandlegg. Annan stakk hann í vinstri síðuna og þann þriðja einu sinni í framhandlegg og einu sinni í hægra lægri.

Spörkuðu og slógu mennina í gólfinu
Tíu félagar hans eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Þeir létu högg og spörk dynja á fórnarlömbunum þremur og stöppuðu á þeim þar sem þau lágu í gólfinu. Einn árásarmannanna var vopnaður hafnaboltakylfu samkvæmt ákærunni.
Fjórtán manns til viðbótar eru ákærðir fyrir hlutdeild í ofbeldisbrotum félaga sinna ellefu. Þeir eru sagðir hafa ruðst inn á staðinn vitandi hvað til stóð og tekið þátt í að ógna fórnarlömbunum með því að vera viðstaddir á meðan á atlögunni stóð. Þannig hafi þeir veitt félögum sínum liðsinni í verki og verið liðsauki við þá.
Árásin náðist á upptöku úr öryggismyndavél á skemmtistaðnum sem lekið var úr upplýsingakerfi lögreglu.
Einn þessara fjórtán er jafnframt ákærður fyrir brot á vopnalögum og ávana- og fíkniefnabrot. Við húsleit á heimili hans í Árbæ fundust hnífar af ýmsu tagi, hnúajárn, hafnaboltakylfa, úðavopn og loftskammbyssa auk kókaíns.
Fórnarlömb árásarinnar krefja árásarmennina um skaðabætur upp á fimm milljónir króna hvert.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stendur til að þingfesta málið í fjórum hollum. Það fyrsta byrjar klukkan 10, svo 11:30, aftur klukkan 13 og að lokum klukkan 15.
