Erlent

Ekki trú­verðugt að Kín­verjar miðli málum í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kirby var nokkuð afdráttarlaus um tilraunir Kínverja til að stilla til friðar.
Kirby var nokkuð afdráttarlaus um tilraunir Kínverja til að stilla til friðar. AP/Manuel Balce Ceneta

Bandaríkjamenn segja ekki trúverðugt að Kínverjar miðli málum í Úkraínu. „Það er ekki á neinn hátt raunhæft að ætla Kínverjum að vera hlutlausir,“ sagði John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, í gær.

Kirby benti meðal annars á að stjórnvöld í Kína hefðu vikið sér hjá því að gagnrýna innrás Rússa í Úkraínu og haldið áfram að kaupa olíu af Rússum á sama tíma og önnur ríki hefðu ráðist í umfangsmiklar refsiaðgerðir til að fylla ekki stríðskistur þeirra.

Þá ætu Kínverjar upp áróður Rússa.

Xi Jinping, forseti Kína, er farinn frá Moskvu en hann ítrekaði í gær þá afstöðu Kínverja að þeir væru hlutlausir og vildu leggja sitt af mörkum í þágu friðar. Á sama tíma lagði hann þó einnig áherslu á gott og náið samband sitt við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Xi hefur boðið Pútín að heimsækja Kína síðar á þessu ári.

Á sama tíma og Xi og Pútín funduðu í Moskvu heimsótti Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, Vólódímir Selenskí Úkraínuforseta. Kishida fór meðal annars um Bucha og vottaði fórnarlömbum hroðaverka Rússa virðingu sína í kirkju í bænum.

Fordæmdi Kishida grimmd innrásarhersins.

Erlendir miðlar fjölluðu um mögulegt símtal milli Xi Jinping og Selenskí í aðdraganda heimsóknar fyrrnefnda til Moskvu. Var Xi sagður ætla að ræða við Selenskí eftir heimsóknina til Rússlands en engar frekari fregnir hafa borist af viðræðum milli leiðtoganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×