Körfubolti

New York Knicks goðsögn látin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willis Reed fagnar hér sigri á Los Angeles Lakers sem færði New York Knicks liðinu NBA-titilinn 1970.
Willis Reed fagnar hér sigri á Los Angeles Lakers sem færði New York Knicks liðinu NBA-titilinn 1970. AP

Willis Reed, einn dáðasti leikmaðurinn í sögu NBA körfuboltafélagsins New York Knicks, er látinn áttræður að aldri.

New York Knicks staðfesti andlát Reed í gær með yfirlýsingu þar sem einnig var farið yfir magnaðan feril hans á körfuboltavellinum.

Reed spilaði tíu tímabil í NBA-deildinni frá 1964 til 1974 og spilaði bara fyrir New York Knicks.

Hann komst sjö sinnum í lið ársins og var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar á 1969-70 tímabilinu.

Reed varð tvisvar sinnum meistari með New York Knicks, fyrst 1970 og svo aftur 1973. Félagið hefur ekki unnið NBA-deildina síðan.

Reed er líklega frægastur fyrir það þegar koma aftur inn í leik sjö í lokaúrslitum Knicks á móti Los Angeles Lakers árið 1970.

Reed hafði misst af leiknum á undan vegna meiðsla og enginn bjóst við því að hann gæti spilað oddaleikinn. Hann kveikti því í Madison Square Garden þegar hann birtist í salnum í búning og færði liðsfélögunum sínum um leið mikla trú enda þarna besti leikmaður NBA.

Reed skoraði síðan tvær fyrstu körfur Knicks í leiknum og gerði allt vitlaust í höllinni. Reed var á öðrum fætinum og skoraði bara þessar tvær körfur.

Hann var kosinn mikilvægasti leikmaður úrslitanna alveg eins og þremur árum síðar þegar New York vann aftur titilinn.

Willis Reed spilaði 650 deildarleiki í NBA og var með 18,7 stig og 12,0 fráköst að meðaltali í þeim. Hann varð að leggja skóna á hilluna 32 ára gamall vegna hnémeiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×