Fyrsta spurningin í Framlengingunni snéri að aldri Njarðvíkurliðsins þar sem Hörður, stjórnandi þáttarins, spurði einfaldlega hvort Njarðvíkingar væru of gamlir.
„Ég ætla að byrja á þér Örvar, Njarðvíkingnum sjálfum. Eru Njarðvíkingar of gamlir til að keppa um Íslandsmeistaratitilinn?“ spurði Hörður blákalt.
„Eins og þeir voru í kvöld, þá já,“ sagði Örvar, en Njarðvíkingar máttu þola 25 stiga tap gegn Valsmönnum og misstu þar með deildarmeistaratitilinn í hendur Vals.
„Þetta er það sem klikkaði í fyrra. Mér fannst þeir springa svolítið á móti Tindastól og verða þreyttir. Núna hafa þeir vissulega meiri breidd, en ég hræðist það pínu að þessir eldri leikmenn og Haukur [Helgi Pálsson] með sín meiðsli ef þeir þurfa að fara að spila á tveggja eða þriggja daga fresti í seríum. Ég vona ekki og hef trú á mínum mönnum en þetta gæti vegið þungt í seríu.“
Brynjar Þór tók í sama streng og kollegi sinn.
„Þetta er allt of hár aldur að mínu mati. Að treysta á þessa leikmenn og Hauk með sína sögu. Við sáum það alveg í úrslitakeppninni í fyrra þegar þetta var komið í þriðja, fjórða eða fimmta leik þá fór líkaminn aðeins að segja til sín. Það eru of margar viðvörunarbjöllur sem hringja og mér finnst við vera að horfa á það sama og í fyrra.“
Aldur Njarðvíkinga var þó langt frá því að vera eina umræðuefnið í Framlengingunni því strákarnir fóru um víðan völl eins og alltaf. Þeir veltu einnig fyrir sér hvort KR eða ÍR yrði á undan að vinna sér aftur inn sæti í efstu deild, hvort Sauðkræklingar væru farnir að finna lykt af úrslitum, hvort það væri stærsta afrek tímabilsins ef Höttur næði að vinna sér inn sæti í úrslitakeppninni og hver framtíð Stjörnunnar verður ef liðið missir af sæti í úrslitakeppni.
Framlenginuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.