„Það er verið að rýma á Norðfirði og á Seyðisfirði og búið að opna fjöldahjálparstöðvar á þessum tveimur stöðum,“ segir Hjördís. Hún segir að fyrra snjóflóðið hafi fallið um sexleytið í morgun en það fyrra um klukkan sjö. Seinna flóðið féll í byggð og lenti á fjölbýlishúsi í bænum sem er ástæðan fyrir því að neyðarstig var sett á.
„Mér heyrist að búið sé að ná sambandi við alla sem lentu í þessu flóði en við erum enn að reyna að ná utan um það þannig að við getum lítið sagt á þessari stundu.“
Hjördís tekur þó fram að ekkert hafi heyrst af meiðslum á fólki en Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri sagði þó í morgunútvarpi RÚV að einhverjir hafi orðið fyrir smávægilegum meiðslum.
Hjördís segir einnig að nokkuð víst sé hversu margir voru í húsinu en að sú tala verði ekki gefin upp að svo stöddu. "Sem betur fer voru þetta þó ekki margir aðilar.“
Engin flóð á Seyðisfirði
Hvað varðar Seyðisfjörð segir Hjördís að ekki sé vitað af flóðum þar, en í ljósi þess að hættustig Veðurstofu hafði verið gefið út fyrir þessa tvo þéttbýlisstaði áður en flóðin féllu í Norðfirði hafi verið ákveðið að rýma hús þar einnig.