Innlent

Safnaðist fyrir tveimur þriðju­hlutum dóms­sektarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Arnar Þór Ingólfsson, Páll Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson.
Arnar Þór Ingólfsson, Páll Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson. Vísir

Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, segir að um hundrað manns hafi lagt til samtals tvo þriðjuhluta þeirrar upphæðar sem hann var dæmdur til að greiða blaðamönnum vegna ummæla sem hann viðhafði á blogginu sínu.

Hinn 24. mars síðastliðinn dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur tvenn ummæli um Arnar Þór Ingólfsson og Þórð Snæ Júlíusson, blaðamenn Kjarnans og nú Heimildarinnar, ómerk. Þá var hann dæmdur til að greiða hvorum um sig 300 þúsund krónur í miskabætur og 750 þúsund krónur í málskostnað.

Eftir að dómurinn lá fyrir efndi Páll til söfnunar fyrir kostnaðinum.

„Undirtektirnar voru slíkar að það söfnuðust tveir þriðju fjárhæðarinnar sem bloggari stendur frammi fyrir að greiða. Tæplega hundrað manns lögðu sitt af mörkum,“ greinir Páll frá á blogginu sínu.

„Launamanni er dýrt spaug að andæfa RSK-miðlum og meðhlaupurum þeirra. En þegar lesendur leggjast jafn kröftuglega á árarnar og raun ber vitni er ekki um annað að ræða en að halda áfram siglingunni þótt gefi á bátinn.

Kærar þakkir fyrir stuðninginn. Hann er ómetanlegur.“


Tengdar fréttir

Páll gefst ekki upp og blæs til söfnunar

Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, hefur sett af stað söfnun fyrir málskostnaði vegna áfrýjunar til Landsréttar. Páll var í vikunni dæmdur til að greiða blaðamönnum Kjarnans miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla í tengslum við Samherjamálið.

Páll dæmdur fyrir um­mæli um Heimildar­menn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt ummæli sem Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, lét falla um blaðamenn Kjarnans. Páll hélt því fram að blaðamennirnir hefðu átt þátt í byrlun og þjófnaði í tengslum við umfjöllun um leynilega áhrifaherferð sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×