Rússar vildu fá sæti í nefnd um stöðu kvenna (CSW) en töpuðu fyrir Rúmeníu í atkvæðagreiðslunni hjá hinu 54 ríkja ECOSOC. Þeir biðu einnig lægri hlut þegar kom að atkvæðagreiðslu um sæti í framkvæmdastjórn UNICEF, þar sem Eistar hrepptu sætið.
Þá sigruðu Armenía og Tékkland í leynilegri atkvæðagreiðslu um sæti í nefnd um afbrotavarnir og refsiviðurlög (CCPC).
Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, sagði niðurstöður atkvæðagreiðslanna skýr skilaboð frá ECOSOC um að ekkert ríki ætti að gegna stöðum við mikilvægar stofnanir Sameinuðu þjóðirnar á sama tíma og þau brytu gegn sáttmálum samtakanna.
Rússar fengu sæti í nefnd um félagslega þróun, sem Bandaríkjamenn og Bretar sögðu sig frá í mótmælaskyni, og sæti í milliríkjavinnuhóp sérfræðinga um alþjóðlega endurskoðunarstaðla.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt sex ályktanir gegn Rússlandi, þá síðustu 23. febrúar síðastliðinn þegar ár var liðið frá innrás Rússa í Úkraínu. Þar var kallað eftir því að stjórnvöld í Moskvu létu af átökum og hörfuðu frá landinu.
Ályktunin var samþykkt með 141 atkvæði gegn 7 en 32 ríki sátu hjá.