Einar Þorvarðarson, fyrrverandi umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar á Austurlandi, hefur gagnrýnt hvað Seyðisfjörður fékk mikið áhrifavald í þessari fimm manna jarðganganefnd. „Þar af voru tveir Seyðfirðingar með fyrirfram mótaðar skoðanir. Þannig að þeir réðu alveg ferðinni í nefndinni,“ sagði Einar í þættinum Ísland í dag.
Í grein Margrétar Guðjónsdóttur undir fyrirsögninni „Að blekkja Alþingi“ rekur hún forsögu málsins og baráttu Seyðfirðinga fyrir samgöngubótum. Þeir hafi á þessum árum hitt hvern einasta samgönguráðherra, sem voru Kristján Möller, Ögmundur Jónasson, Ólöf Nordal, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

„Eftir fyrsta fund með þáverandi ráðherra áttuðum við okkur á því hvers vegna Fjarðabyggð hafði sagt skilið við stóru jarðgangasýnina fyrir mið-Austurland og einblínt bara á ný Norðfjarðargöng,“ segir Margrét en hún var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Seyðisfirði á árunum 2010 til 2018.
Fram kemur að Seyðfirðingar hafi metið stöðuna þannig að ekki væri vilji hjá ráðamönnum á Alþingi að ráðast í fjöl-ganga verkefni á mið-Austurlandi. Skilaboðin hafi verið þau að „..ef Seyðfirðingar ætluðu einhvern tímann að sjá fyrir endann á þeim farartálma sem Fjarðarheiði væri, skildum við einblína á ein jarðgöng,“ segir hún.
Stuðningur sem Seyðfirðingar hafi vænst úr Fjarðabyggð hafi ekki verið jafn auðfenginn og vonast hafði verið til.
„Nágrannar okkar sunnan fjarða sem þegar höfðu Oddskarðsgöng, Fáskrúðsfjarðargöng og sáu nú fram á framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng, fundu Fjarðarheiðargöngum allt til foráttu. Þeir voru vanir að ráða og vildu áfram fá að ráða.“
„Svo gerðist það að nýr ráðherra, Jón Gunnarsson, ákvað að stofna sérstaka nefnd um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Göngin hefðu það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og á Austurlandi öllu,“ segir Margrét.

„Við tók ný barátta þegar ljóst var að bæjarstjórn Seyðisfjarðar átti ekki að fá að eiga fulltrúa í nefnd ráðherra, nefnd sem átti að fjalla um stærsta og mikilvægasta öryggis- og réttlætismál Seyðfirðinga fyrr og síðar, bæjarstjórn Seyðisfjarðar átti hreinlega ekki að fá sæti við borðið,“ segir hún.
Margrét greinir frá því að bæjarfulltrúar hafi átt fund með Jóni Gunnarssyni. „Tók hann ábendingar bæjarstjórnar Seyðisfjarðar um skipan í nefndina til greina,“ segir hún og þakkar sérstaklega þáverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir stuðning hennar í málinu.
Niðurstaða Jóns Gunnarssonar var að skipa tvo Seyðfirðinga í nefndina sem báðir komu úr röðum sjálfstæðismanna. Annarsvegar Arnbjörgu Sveinsdóttur, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, og forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, og hins vegar Adolf Guðmundsson, fyrrverandi útgerðarmann á Seyðisfirði, en hann skipaði heiðurssætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 2018.
Aðrir í nefndinni voru Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, Jóna Árný Þórðardóttir, löggiltur endurskoðandi, og Snorri Björn Sigurðsson, forstöðumaður á Byggðastofnun.
„Það var gríðarlega mikilvægt að hafa Arnbjörgu Sveinsdóttur með og vorum við þess fullviss að víðtæk reynsla hennar af sveitarstjórnarmálum og þingmennsku myndi vera mikilvæg fyrir störf nefndarinnar,“ segir Margrét.
Lokaorðin í grein hennar á Vísi eru: „Engum blekkingum var beitt af hálfu bæjarfulltrúa Seyðisfjarðar í garð þingmanna, ráðherra eða Alþingis á meðan baráttu fyrir Fjarðarheiðargöngum stóð.“