Wembanyama er aðeins 19 ára gamall, en hefur nú þegar vakið verðskuldaða athygli á körfuboltavellinum. Hann er 219 sentímetrar á hæð og er að öllum líkindum umtalaðasti táningur körfuboltaheimsins síðan LeBron James skráði nafn sitt í nýliðavalið árið 2003.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Wembanyama nú þegar slegið í gegn í frönsku deildinni þar sem hann hefur skorað yfir 21 stig að meðaltali í leik, ásamt því að taka tæplega tíu fráköst að meðaltali. Hann hefur leikið 29 leiki með Metropolitans 92 í frönsku deildinni.
Búist er við því að Wembanyama verði fyrsta val í nýliðavali NBA-deildarinnar í júni. Detroit Pistons, Houston Rockets og San Antonio Spurs eru því líklegustu liðin til að krækja í leikmanninn, en Wembanyama segist vera nokkuð sama um hvar hann endar, hann vilji bara komast í NBA-deildina.
„Ég hef engar áhyggjur. Það er ekkert slæmt lið þarna,“ sagði Wembanyama.
„Ég segi aldrei við sjálfan mig að ég vilji ekki fara í eitthvað tiltekið lið. Það er engin ákvörðun röng ákvörðun.“