Philadelphia-liðið var án síns besta manns í nótt því Joel Embiid þurfti að fylgjast með leiknum af hliðarlínunni, tognaður í hné.
Gestirnir frá Philadelphia voru því sjö stigum undir að loknum fyrsta leikhluta og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 48-40. Brooklyn Nets í vil.
Gestirnir snéru taflinu þó við snemma í síðari hálfleik og voru komnir með þriggja stiga forskot að þriðja leikhluta loknum. Þeir létu það forskot aldrei af hendi og unnu að lokum átta stiga sigur, 96-88, og tryggðu sér um leið sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar.
Tobias Harris var atkvæðamestur í liði gestanna og skoraði 25 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Í liði Brooklyn var Spencer Dinwiddie stigahæstur með 20 stig.
🏀 FINAL SCORE THREAD 🏀
— NBA (@NBA) April 22, 2023
The @sixers picked up a Game 4 win in Brooklyn to advance to the Eastern Conference Semifinals!#NBAPlayoffs presented by Google Pixel pic.twitter.com/A4b9Q2S6Eb
Þá eru bæði Los Angeles Lakers og Miami Heta komin með óvænta 2-1 forystu í sínum rimmum í átta liða úrslitum. Lakers-liðið sem endaði í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar vann tíu stiga sigur, 111-101, gegn Memphis Grizzlies sem endaði í öðru sæti og Miami Heat sem endaði í áttunda sæti Austurdeildarinnar vann 22 stiga sigur gegn efsta liði deildarinnar, Milwaukee Bucks, 121-99.
Að lokum er Phoenix Suns með 3-1 forystu gegn Los Angeles Clippers eftir 12 stiga sigur í nótt, 112-100.