Skoðun

Fimmta hvert barn í leigu­hús­næði býr við sára­fá­tækt

Viðar Eggertsson skrifar

Samtök leigjenda birtu nú á dögunum kolsvarta skýrslu um stöðuna á leigumarkaði og er vægast sagt dregin þar upp öllu nöturlegri mynd en við fáum yfirleitt að heyra.

Þar kemur skýrt fram að það er alvarleg húsnæðiskreppa á Íslandi og kjör leigjenda eru hrikaleg sem bitnar skelfilega á veikum hópum: þeim sem eru á lægstu laununum, fjölskyldufólki, örorkulífeyristökum og ellilífeyristökum. Og ástandið fer hríðversnandi. Því þessir hópar eru í raun fastir í óðaverðbólgu sem hækkar leigu á íbúðarhúsnæði í hverjum einasta mánuði.

Fimmta hvert barn í leiguhúsnæði býr við sárafátækt. Það er nánast ómögulegt að fólk komist af leigumarkaði eftir því sem það verður eldra, því fer þeim sífjölgandi sem eru í þeirri stöðu. En einungis innan við 1 af hverjum 10 leigjendum vilja vera á leigumarkaði – skiljanlega!

Æ meiri skortur á leiguhúsnæði neyðir fólk til að taka sér bólfestu í óleyfishúsnæði og skorturinn skrúfar upp leiguverðið í hverjum einasta mánuði. Því leigjendum gefst ekki annað en að beygja sig undir óásættanlega samninga sem eru í raun einhliða ákvörðun leigusalans. Því lög um vísitölutengingu á húsaleigu voru afnumin árið 1999.

Það eru fyrirtæki sem gera grimmilega út á húsnæðismarkaðinn og hafa rakað að sér æ stærri hluta hans og bjóða leigjendum afarkosti – afarkosti á að eiga sér heimili; grunnþörf hvers manns.

2/3 allra íbúða frá árinu 2005 hafa verið keyptar af fjárfestum – í þeim eina tilgangi að hagnast á þeim.

Það er full ástæða til að Alþingi hætti að draga lappirnar í neyð leigjenda. Því ber að taka vafningalaust fyrir mál leigjenda og stöðu þeirra á Íslandi af fullri alvöru og þunga.

Leigjendur geta ekki beðið lengur eftir réttlæti.

Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×