Fishrot: Fisheries and Corruption in Namibia, er heiti bókarinnar, eða Rotfiskur: Sjávarútvegur og spilling í Namibíu. Var hún gefin út á miðvikudag af dagblaðinu The Namibian, sem hefur skrifstofu í höfuðborginni Windhoek.
„Höfundar bókarinnar, prófessorinn Roman Grynberg, rannsóknarblaðamaðurinn Shinovene Immanuel og ritstjóri The Namibian, Tangeni Amupadhi, gerðu ítarlega rannsókn til að koma upp um spillingu í namibískum sjávarútveg. Meðal annars með viðtölum við innanbúðarfólk og sérfræðinga,“ segir í tilkynningu. Segir að í bókinni sé greint frá því hvernig Samherji og namibískir embættismenn hafi auðgast á kostnað namibísks almennings.
140 milljarða virði af hrossamakríl
„Í bókinni er umfangsmikil greining á þessu hneykslismáli og hvernig það bar að. Það er mikilvægt fyrir almenning að nota þessa bók sem skapalón fyrir spillingarmál sem gætu komið upp í framtíðinni,“ sagði Amupadhi við kynningu bókarinnar.
Grynberg lagði áherslu á að 14 milljarða namibíudollara virði af hrossamakríl sem hvarf í spillinguna hefði getað nýst til að takast á við félagsleg og efnahagsleg vandamál landsins, til að hjálpa fátækum Namibíumönnum. Það er um 140 milljarðar íslenskra króna.
Stjórnina skorti viljann
„Að mínu mati skortir ríkisstjórnina viljann til að takast á við fátækt og arfleið nýlendustefnunnar og aðskilnaðarstefnunnar,“ sagði Grynberg.
Þá hvatti Immanuel almenning til þess að koma upp um spillingu og krefjast þess að gagnsæi og ábyrgð séu viðhöfð þegar um þjóðarauðlindir er að ræða.
„Við vonum að bókin okkar varpi ljósi á þetta vandamál og hvetji fólk til að taka málin í sínar eigin hendur til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist í framtíðinni,“ sagði hann.
Ekki fyrsta bókin
Bókin er ekki sú fyrsta sem kemur út um málið. Árið 2019 skrifuðu Helgi Seljan, Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson bókina Ekkert að fela: Á slóðum Samherja í Afríku. En þeir þrír unnu að umfjöllun um Samherjamálið fyrir sjónvarpsþáttinn Kveik á RÚV.

Greint hefur verið frá því að starfsmenn Samherja hafi sent tölvupóst á framkvæmdastjóra Forlagsins, sem gaf bókina út, þar sem þess var krafist að bókin yrði innkölluð.