Þetta er meðal þess sem fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi forsetans með leiðtogum Norðurlandanna á blaðamannafundi í Helsinki nú fyrir skemmstu. Þar var Selenskí spurður út í málið.
Rússnesk stjórnvöld segja þau úkraínsku bera ábyrgð á tveimur drónum sem flogið var á Kreml í Moskvu í morgun og sprungu í loft upp. Þau segja að um hryðjuverkaárás sé að ræða og áskilja sér rétt til hefnda.
„Ég get endurtekið þessi skilaboð og ég vil að þetta sé á kristaltæru,“ sagði Selenskí á fundinum nú síðdegis og var þetta eina spurningin sem hann svaraði á ensku en ekki á úkraínsku.
„Við réðumst ekki á Pútín eða Moskvu. Við berjumst innan okkar eigin landamæra. Við erum að verja þorpin okkar og borgirnar okkar.“
Segir forsetinn að úkraínsk stjórnvöld hafi einfaldlega ekki úr meira fjármagni að moða. Það hafi því augljóslega ekki verið á færi úkraínskra stjórnvalda að framkvæma þá árás sem framin hafi verið í morgun.
„Við réðumst ekki á Pútín og við munum leyfa herdómstólum að úrskurða um þetta.“