„Já, sýningin var bara ótrúlega vel heppnuð í alla staði og aðsókin góð; í raun má segja að hún hafi farið langt fram úr væntingum, þannig að við getum ekki verið annað en mjög sátt,“ segir Roald Eyvindsson, nemi í grafískri miðlun.

Á sýningunni gaf að líta fjölbreytt verk eftir nítján nemendur, allt frá ljósmyndum upp í innbundnar bækur og prentgripi, þar á meðal ljósmyndabækur, auglýsingar, umbúðir, bæklinga og tímaritið Ask, sem er samstarfsverkefni nema í grafískri miðlun.
Lokapunktur á löngu lærdómsferli
Það voru nemendur í bókbandi, grafískri miðlun og ljósmyndun Upplýsingatækniskólans sem stóðu að sýningunni en hún er lokapunkturinn á tveggja og hálfs árs lærdómsferli þeirra og þykir gefa ágætis innsýn í hið yfirgripsmikla nám sem fram fer í skólanum.
Roald segir nemendur vera í skýjunum með góðar viðtökur.
„Við erum bara rosalega ánægð með hvernig til tókst, eins og ég segi, og gaman að finna fyrir því hvað það er mikill áhugi á hönnun, ljósmyndun og prentgripum. Það var stöðugur straumur á opnuninni og fólki var tíðrætt um hvað verkin væru fjölbreytt og skemmtileg. Já það er alveg ljóst að þessi sýning hitti beint í mark.“
Roald bendir á áhugasöm þurfi ekki að örvænta þótt þau hafi ekki komist á sýninguna. Hluti hennar, það er að segja verk eftir nema í grafískri miðlun, megi nefnilega nálgast hér.




