Eftir skarpa lækkun meginvaxta Seðlabankans frá lokum maí 2019 til byrjun nóvembers 2020 þegar vextirnir urðu lægstir í 0,75 prósentum tóku þeir að hækka á ný byrjun maí 2021. Síðast liðinn tvö ár hefur peningastefnunefnd Seðlabankans hækkað meginvexti sína, eða stýrivexti, nánast á hverjum einasta vaxaákvörðunardegi nú síðast hinn 21. apríl í 7,5 prósentustig. Greiningardeildir bankanna reikna flestar með að nefndin hækki vextina enn á ný á morgun um allt að eitt prósentustig.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir ekki nýtt að greiningardeildir bankanna spái sífellt hækkun vaxta enda hafi bankarnir mikinn hag af vaxtahækkunum. Vaxtatekjur þeirra hafi aukist um 25 milljarða á síðasta ári og vaxtamunur ekki skilað sér til neytenda.Það veki líka athygli að verðbólga hafi ekki minkað eins og búist hefði verið við þegar kjarasamningar voru undirritaðir í desember.

„Það nægir kannski að nefna í því samhengi að í janúar voru 53 prósent af hækkun neysluvísitölunnar vegna gjaldskrárhækkana stjórnvalda,“ segir Vilhjálmur.
Í síðasta mánuði hafi aðeins 0,46 prósent verðbólgunnar átt rætur í hækkun fasteingahlutans í vísitölunni vegna örfárra kaupsamninga enda vextirnir hægt á íbúðauppbyggingu. Vextir hefðu hækkað um tvö prósentustig frá undirritun kjarasamninga í desmeber og ef spá greiningardeilda rættist á morgun hefðu vextirnir hækkað um þrjú prósentustig.
„Sem er algerlega með ólíkindum og algerlega þvert gegn því sem við vorum að gera þegar við undirrituðum kjarasamningana.“ Það væri greinilega eitthvað mikið að í íslensku hagkerfi.
„Og ég hef svo sem sagt það áður að við séum komin að ögurstundu að fara að skoða nýjan gjaldmiðil. Því það er einhver ástæða fyrir því að þetta er með þessum hætti,“ segir Formaður Starfsgreinasambandsins.
Þess vegna þrýfist verðtryggð lán á Íslandi. Á næstu misserum falli fastir vextir á lánum heimilanna upp á rúmlega 600 milljarða niður. Þá muni fjármálakerfið vísa heimilunum í verðtryggð lán vegna þess að þau ráði ekki við vaxtabyrðina.
„Ef það væri ekki hægt gæti Seðlabankinn og fjármálakerfið ekki hækkað vextina svona mikið. Þá yrði bara greiðslufall hjá íslenskum heimilum,“ segir Vilhjálmur.
Núgildandi samningar voru gerðir til eins árs í von um að verðbólgan gengi niður. Nú sitja menn hins vegar við samningaborðið með það að markmiði að gera langtíma samninga.
„En á meðan ástandið er svona eins og við erum að horfa upp á núna, er ég meira kominn á þá skoðun að menn skoði skammtímasamning aftur. Því það er ekki hægt að búa við þetta. Að hlutirnir þróist ætíð með þessum hætti alveg sama hvað í verkalýðshreyfingunni erum að gera,“ segiri Vilhjálmur Birgisson.