Körfubolti

Létu ekki sópa sér og reyna það sem 150 hefur mistekist

Sindri Sverrisson skrifar
Jayson Tatum búinn að finna leið að körfu Miami í sigrinum í gærkvöld.
Jayson Tatum búinn að finna leið að körfu Miami í sigrinum í gærkvöld. AP/Rebecca Blackwell

Lið Boston Celtics er enn á lífi í einvíginu við Miami Heat eftir að hafa landað 116-99 sigri í Miami í gærkvöld. Miami er enn 3-1 yfir en nú færist einvígið yfir til Boston á nýjan leik.

Liðin mætast aftur annað kvöld og svo í Miami á laugardaginn ef þess þarf, og mögulega í oddaleik í Boston 29. maí. Sigurliðið mætir Denver Nuggets í úrslitaeinvíginu sem hefst 1 júní.

Þrátt fyrir sigurinn er vonin veik hjá Boston og vert að benda á að engu liði í sögunni hefur tekist að vinna einvígi eftir að hafa lent 3-0 undir. Af þeim 150 sem hafa reynt hefur 150 mistekist.

Útlitið var ekki gott hjá Boston snemma í þriðja leikhluta í gærkvöld, níu stigum undir og á leið í sumarfrí. En svo small allt og sigurinn varð á endanum öruggur.

„Við vorum bara að reyna að bjarga tímabilinu okkar,“ sagði Jayson Tatum sem skoraði 33 stig og tók 11 fráköst. Jaylen Brown skoraði 17 stig.

Eftir að hafa lent níu stigum undir skoraði Boston átján stig í röð, á þremur mínútum, og liðið endaði á að vinna þriðja leikhluta 38-23.

„Við getum ekki slakað á. Við verðum að halda sama ákafa allan tímann, sama hugarfari, og hafa sömu einbeitingu í næsta leik,“ sagði Joe Mazzulla, þjálfari Boston.

Derrick White skoraði 16 stig fyrir Boston, Grant Williams 14, Al Horford 12 og Marcus Smart 11. Jimmy Butler var stigahæstur Miami með 29 stig.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×