Jokic skoraði 28 stig og tók sextán fráköst í leiknum í nótt. Hann var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins. Í því var hann með 30,2 stig, 14,0 fráköst og 7,2 stoðsendingar að meðaltali.
Serbinn verður ekki sakaður um að fara fram úr sér í fögnuðinum eftir að Denver tryggði sér titilinn. Og hann virkaði dauðuppgefinn þegar hann var spurður út í skrúðgönguna sem meistaralið fara venjulega í og hvort hann hlakkaði til hennar.
„Hvenær er skrúðgangan,“ spurði Jokic sem var tjáð að hún yrði á fimmtudaginn. „Nei, ég þarf að fara heim,“ bætti hann þá við.
Jokic var stiga-, frákasta- og stoðsendingahæstur í úrslitakeppninni. Hann er fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA sem nær því.
Í úrslitakeppninni var hinn 28 ára Jokic með 30,0 stig, 13,5 fráköst og 9,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.