Kynningarfundur um stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni fór fram á vegum húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í dag.
Ráðherra greindi frá ákvörðun um að hækka tölu íbúða sem byggðar verða fyrir tekju- og eignaminni árin 2023-2025 úr 1.250 í 2.800. Þar af verði átta hundruð íbúðir reistar á þessu ári.
Þá fór fyrri úthlutun á stofnframlögum fram. Þremur milljörðum króna var úthlutað til byggingar á 286 leiguíbúðum fyrir tekju- og eignaminni í sextán sveitarfélögum. Sjötíu prósent þeirra íbúða verða byggðar á höfuðborgarsvæðinu og þrjátíu prósent á landsbyggðinni.
Á móti framlagi ríkisins veita sveitarfélög tæplega 1,8 milljarða króna framlag til byggingar á íbúðunum.
Að auki kynnti ráðherra breytta reglugerð um hlutdeildarlán sem á að auðvelda fólki íbúðarkaup. Hann sagði hámarksverð íbúða hafa verið uppfært, verðflokkar sveitarfélaga hafa verið endurskoðaðir og tekjumörk lántaka uppfærð. Hlutdeildarlánum verði að auki úthlutað mánaðarlega en ekki annan hvern mánuð.