Þorvaldur Orri er fæddur árið 2002 og var lykilmaður hjá uppeldisfélagi sínu KR síðustu tvær leiktíðir. Í vetur spilaði hann alla leiki liðsins og var með 13 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Eftir tímabilið skráði Þorvaldur Orri sig í nýliðaval þróunardeildar NBA í Bandaríkjunum eða NBA G-deildinni eins og hún er kölluð ytra. Valið fór fram í dag og var Þorvaldur Orri valinn númer níu í röðinni af liði Cleveland Charge.
Cleveland Charge @ChargeCLE picked 2002 born Icelandic International Guard, Thorvaldur Arnason, at the @nbagleague International Draft! @TangramSports @kkikarfa pic.twitter.com/i3AvTWdBn4
— Christos Lazarou (@ChristosLazarou) June 28, 2023
Liðin í þróunardeildinni eru þrjátíu talsins en nær öll eru þau í eigu liða í NBA-deildinni. Cleveland Charge er varalið Cleveland Cavaliers en Charge-liðið leikur heimaleiki sína í Wolstein-höllinni sem tekur 13.000 áhorfendur.
Cleveland Charge hefur einu sinni unnið þróunardeildina en það var árið 2006. Frá árinu 2020 hafa sex leikmenn úr þróunardeildinni verið valdir í nýliðavali NBA og má þar nefna Jalen Green sem valinn var númer tvö af Houston Rockets.