Lögreglan á Suðurlandi hefur andlát Sofiu til rannsóknar og er karlmaður í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa banað henni. Valda segist þakklát öllum þeim sem hafi veitt henni styrk á þessum erfiðu tímum og þakkar sérstaklega börnum sínum og systkinum Sofiu.
„Krakkarnir mínir hafa staðið sig eins og hetjur og ekki gefist upp, þau eru öll mætt til vinnu og hitta vini og fjölskyldu,“ skrifar Valda í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Hún þakkar sömuleiðis vinafólki sínu fyrir skilyrðislausa ást og stuðning.
„Einnig langar mig að þakka forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni fyrir handskrifað bréf sem hann sendi og sýndi okkur stuðning á þessum erfiðu tímum og hans yndislegu eiginkonu Elizu Reid sem gerði það jafnframt og hefur boðið okkur að líta við.“
Í gæsluvarðhaldi í tvær vikur til viðbótar
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að maðurinn sem grunaður er um að hafa valdið Sofiu bana verði í gæsluvarðhaldi í tvær vikur til viðbótar hið minnsta.
Lögregla kærði gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands fyrir tveimur vikum síðan til Landsréttar og fékk gæsluvarðhald yfir manninum því framlengt um fjórar vikur. Sveinn segir lögreglu hafa talið það nauðsynlegt vegna biðar eftir gögnum erlendis frá.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæplega níu vikur. Sveinn segir lögreglu enn bíða eftir lokaskýrslu úr krufningu en hann segir bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að Sofiu hafi verið ráðinn bani.