Thunberg var í hópi loftslagsaðgerðasinna sem stöðvuðu umferð olíuflutningabíla á hafnarsvæði í Malmö 19. júní. Hún er sögð hafa neitað að færa sig þegar lögreglumenn skipuðu henni og öðrum að gera það. Hún og fleiri voru þá dregin í burtu.
Fréttasíðan Sydsvenskan hefur eftir lögreglu að Thunberg og félagar hafi heft för um þrjátíu flutningabíla. Mótmælendurnir hafi verið beðnir um að færa sig þegar umferðarröskunin hafi verið talin of mikil.
„Þú hefur rétt til að mótmæla en þú mátt ekki mótmæla þannig að það valdi öðrum truflunum,“ segir Charlotte Ottosen, saksóknarinn sem ákærði Thunberg.
Thunberg sjálf sagði að hún og félagar hennar hafi ákveðið að standa ekki þögul hjá heldur grípa til aðgerða gegn jarðefnaeldsneytisinnviðum.
„Við erum að endurheimta framtíðina,“ sagði Thunberg í færslu á Instagram á sínum tíma.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Thunberg komst í kast við lögin á þessu ári. Hún var handtekin við loftslagsmótmæli við kolanámu í Þýskalandi í janúar. Mótmælin beindust að áformum yfirvalda um að jafna þorp við jörðu til þess að rýma til fyrir stækkun kolanámunnar.
Thunberg öðlaðist heimsfrægð fyrir vikuleg loftslagsmótmæli sín sem hún kallaði skólaverkföll. Þau urðu ungmennum um allan heim fyrirmynd að sambærilegum aðgerðum. Hún hefur nú sagt skilið við þau mótmæli þar sem hún er orðin tvítug og útskrifuð úr skóla.