Árásin síðast liðna nótt var sú harðasta sem Rússar hafa gert á borgina Lviv í vesturhluta Úkraínu frá því innrás þeirra hófst hinn 24. febrúar í fyrra. Rússum hefur lítið orðið ágengt til sóknar á vígstöðvunum í austur- og suðurhluta Úkraínu mánuðum saman þrátt fyrir harða bardaga við borgina Bakhmut.
Þeir hafa því í vaxandi mæli beitt hreinum hryðjuverkum gegn Úkraínu með eldflaugaárásum frá skipum og flugvélum á fjölda borga og bæja. Þá er nánanst fullvíst að Rússar sprengdu virkjanastífluna við Kakhovka orkuverið í Kherson héraði í síðasta mánuði sem olli gífurlegu tjóni þegar vatn flæddi yfir stórt bæi og ræktarland.
Eldflaugin sem Rússar skutu frá Svartahafi á Lviv í nótt sprakk við fjölbýlishús í borginni. Þrjár konur á aldrinum 32 ára til 95 ára féllu ásamt 35 ára karlmanni. Við leit í rústunum í dag fannst síðan lík fimmtu konunnar. Rúmlega þrjátíu manns særðust og borgarstjórinn segir að um eða yfir 30 íbúðarbyggingar hafa eyðilagst. Enn er leitað að fólki í rústunum.
Þrátt fyrir augljósar afleiðingar eldflaugaárásirnar eru Rússar eins og venjulega í hliðarveruleika. Þrátt fyrir augljósar afleiðingar árásarinnar fögnuðu þeir því í dag að hafa skotið á tímabundnar herbúðir Úkraínumanna og geymslu fyrir brynvarin farartæki sem Vesturlönd hafa sent til Úkraínu.

En það er ekki víst að Ganna Fedorenko íbúi í hverfinu þar sem eldflaugin sprakk sé sammála lýsingum Rússa á árásinni.
„Rússar varpa sprengjum á okkur. Þannig er ást þeirra á okkur. Ég syrgi þá sem létust. Þau voru ung, ég votta þeim samúð mína," sagði Fedorenko þar sem hún stóð í rústunum lítillega særð.
Úkraínumenn segjast hafa náð að skjóta niður sjö af tíu Kalibr eldflaugum Rússa síðast liðna nótt. Ein fluganna hafi hins vegar breytt um stefnu og hafnað á Lviv.