Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Hreiðar, sem segir þungu fargi af sér létt eftir að Héraðsdómur Suðurlands hafnaði með úrskurði á föstudag kröfu eigenda nágrannajarðarinnar Hraunbóls um að lögbann yrði sett á notkun Hreiðars að einu vegtengingunni að Orustustöðum en þar hyggst hann reisa tvöhundruð herbergja hótel.
„Ég mun leggja fram teikningar núna á næstu dögum og óska eftir heimild, framkvæmdaleyfi fyrir greftri, og byggingarleyfi,“ segir Hreiðar.

Héraðsdómur Suðurlands vísaði meðal annars til fornra vegminja að gamla bæjarstæðinu þegar hann taldi víst að Orustustaðir hefðu haft vegtengingu í gegnum land Hraunbóls í yfir 120 ár og því skapað sér að minnsta kosti umferðarrétt um veginn. Það sem Hreiðar gerði var að láta aka möl í veginn þar sem hann liggur um land Hraunbóls.
„Vegurinn er bara eins og hann er, í þokkalegu standi, og nú verður bara haldið áfram og hótelið opnað eftir átján til tuttugu mánuði.“
Vegurinn er þó aðeins bráðabirgðavegur. Samkvæmt skipulagi á að byggja upp varanlegan veg fjær Hraunbóli, sem Hreiðar segir að sé hlutverk Vegagerðarinnar. En er skynsamlegt að hefja uppbyggingu á tíu milljarða króna hóteli á meðan ekki er fengið leyfi til að leggja þangað almennilegan veg?

„Ég er með þennan veg samkvæmt skipulagi, samþykktu aðal- og deiliskipulagi. Og hann samkvæmt skipulaginu verður byggður upp þannig að hann þoli þungaumferð. Við þurfum ekkert annan veg.
En þetta er ekki bundið slitlag. Þetta eru náttúrlega leiðindi að því leyti, - fyrr en að stjórnvöld kippa í spottana. Maður trúir því ekki að það líði langur tími hjá stjórnvöldum. Þetta er náttúrlega yfirlýst loforð,“ segir Hreiðar og vísar þar til samskipta sinna við ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Sigurð Inga Jóhannsson.
„Þegar menn eru með samgöngu- og sveitarstjórnarmál, - að þeir láti þetta viðgangast.
Þetta er svæði, eins og allir sjá, - það er engin uppbygging hér miðað við nokkurt annað svæði á Suðurlandi. Þetta er algjörlega frosið,“ segir Hreiðar Hermannsson, eigandi Orustustaða og Stracta Hótels.