Handbolti

Kolstad staðfestir alvarleg fjárhagsvandræði og launalækkanir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dvöl ofurstjörnunnar Sanders Sagosen hjá Kolstad byrjar ekki vel.
Dvöl ofurstjörnunnar Sanders Sagosen hjá Kolstad byrjar ekki vel. Vísir/EPA

Nýríka norska handboltafélagið Kolstad virðist ekki vera svo ríkt eftir allt saman. Félagið hefur staðfest að það eigi í fjárhagserfiðleikum og ráðast þurfi í niðurskurð.

Í gær bárust fregnir af því að fjárhagsstaða Noregsmeistara Kolstad sé slæm og félagið þurfi að grípa til verulegra launalækkuna. Talað var um að leikmenn þurfi að taka á sig þrjátíu prósent launalækkun vegna næsta tímabils og tuttugu prósent launalækkun vegna tímabilsins 2024-25.

Kolstad hefur nú staðfest þessar fregnir. Félagið segir að illa hafi gengið að afla tekna og utanaðkomandi aðstæður hafi haft áhrif á fjárhaginn. Meðal þeirra eru veiking norsku krónunnar, verðbólga og áhrif stríðsins í Úkraínu. 

Íslensku landsliðsmennirnir Sigvaldi Guðjónsson og Janus Daði Smárason leika með Kolstad sem varð þrefaldur meistari í Noregi á síðasta tímabili. Liðið var svo úthlutað sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fyrir næsta tímabil.

Ekki er langt síðan þrjár af stærstu stjörnum norska landsliðsins gengu í raðir Kolstad, þar á meðal Sander Sagosen, einn besti leikmaður heims. Einnig eru Magnus Rød og Gøran Johannessen komnir til Kolstad. Þjálfari liðsins er Christian Berge sem var lengi þjálfari norska karlalandsliðsins og var sterklega orðaður við það íslenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×